Timburhús

Timburhús Heiðartún 5
Timburhús Heiðartún 5

Við hjá Reisum.is sérhæfum okkur í byggingu vandaðra timburhúsa.

Timburhúsin okkar eru í fyrirfram ákveðnum gæðum, en vissulega getum við gert breytingar sem mæta þörfum viðskiptavina okkar, þá þarf aðeins að greiða fyrir mismuninn ef um dýrari útfærslur er að ræða.

Við reisum líka sumarbústaði, ferðaþjónustuhús og smáhýsi sem m.a. má breyta í sauna.

Frágangur utanhúss

Húsin eru timburhús á steyptri einangraðri gólfplötu með gólfhita. Að utan eru húsin klædd með HardiPlank® formáluðum sementstrefjaplötum, sem fást í mörgum litum. Þak er klætt svörtu stallastáli frá Aseta ehf. Gluggarnir eru úr hvítu viðhaldsfríu PVC efni, þeir koma frá Atlantic Windows og hafa staðist 1100 paskala slagregnspróf hjá RB. Útihurðir eru hvítar, klæddar áli. Bílskúrshurð er einnig hvít, álklædd með gluggarönd og henni fylgir hurðaropnari og fjarstýring. Halogen lýsing er í þakskyggni.

Innifalið í verði er lóðin grófjöfnuð en við getum gert þér tilboð í jarðvinnu og þá geturðu fengið lóðina fullfrágengna samkvæmt þínum óskum.

Frágangur innanhúss

Að innan eru útveggir með rakavarnalagi, 1100 PAM, síðan 38 mm lagnagrind og einangrun og loks klæddir með 13 mm Click Board plötum frá Parket og Gólf. Innveggir eru úr trégrind 45×70 mm einangraðir með steinull og klæddir 13 mm Click Board plötum. Tvöfalt 16mm gifs er á innveggjum bílskúrs.

Hita-, vatns- og raflagnir eru innan við rakavarnarlagið í útveggjum og loftum. Veggir og loft er fullfrágengið og málað, málarahvítt í loftum og marmarahvítt á veggjum. Raflagnir allar frágengnar, tengt er í allar dósir, rofar (hvítir) komnir á sinn stað og loftdósir tilbúnar til tenginga. Hiti er í öllum gólfum með þráðlausum stýringum sem fylgja með, ásamt því eru ofnar í andyri, þvottahúsi og handklæðaofn á aðalbaði. Allar lagnir og ofnar koma frá Húsasmiðjunni.

Allar innihurðir koma frá Víkurási og eru gegnheilar, spónlagðar í stíl við innréttingarnar sem koma frá TAK. Hurð í andyri er glerjuð í frönskum stíl. Kaupandi getur valið um 3 mismunandi spónartegundir, eik, kirsuber eða mahogny á innréttingar. Sturtuklefar og bað eru frá Sturta.is. Yfir hluta af íbúðunum er geymsluloft. Reisum.is velur flísar og innréttingar sem viðskiptavinurinn getur síðan breytt eftir sínu höfði, en greiðir þá þann mismun sem hans breytingar valda.

Andyri

Andyri er skilað með skápum. Gólf flísalagt.

Eldhús

Við leggjum áherslu á að hanna rúmgóð eldhús sem þægilegt er að vinna í. Reisum.is gefa út ákveðna teikningu sem viðskiptavinur getur síðan breytt eftir sínu höfði.
Halógen lýsing er í innréttingu. Borðplata úr dökku harðplasti, einnig er hægt að fá aðrar gerðir af bekkplötum ef óskað er. Innréttingunni fylgir eldhúsvaskur og blöndunartæki. Öflugt keramik helluborð, veggofn og stállitaður háfur frá Electrolux. Gert er ráð fyrir uppþvottavél og örbylgjuofni í innréttingu. Flísalagt er á milli skápa og borðplötu.

Baðherbergi

Morgnar eru annasamur tími hjá fjölskyldunni, þegar foreldrarnir eru á leið í vinnu og börnin í skóla. Bið eftir baðherberginu getur skapað pirring og almenn leiðindi. Þess vegna gera teikningarnar okkar ráð fyrir tveimur baðherbergjum, rúmgóðu aðalbaðherbergi og öðru minna.  Aðalbaðherberginu er skilað fullflísalögðu, gólf og veggir. Innréttingin kemur með spegli og ljósakappa. Borðplata úr harðplasti með vaski og blöndunartækjum. Baðkar með innbyggðum blöndunartækjum og nuddi. Vandaður stór sturtuklefi með blöndunartækjum. Upphengt (kassi innbyggður í vegginn) klósett sem auðveldar þrif og handklæðaofn eru atriði sem þú gengur að sem vísum hjá okkur. Minna baðherbergið skilast með sturtuklefa, vaski og wc.

Herbergi

Hjónaherbergi eru venjulegast mjög rúmgóð með 6 földum skápum eða fataherbergi með rennihurðum til að spara pláss. Barnaherbergjum er skilað með tvöföldum skápum.

Stofa, gangur, herbergi og hol

Skilast venjulega gólfefnalaust en það er minnsta mál að leggja fyrir þig gólfefnið sem þú velur þér. Við getum gert þér föst verðtilboð í verkið, hafðu samband.

Þvottahús

Innrétting með borðplötu úr harðplasti með vaski og blöndunartækjum. Gert er ráð fyrir þvottavél og þurrkara í innréttingu. Gólf flísalagt með sömu flísum og í bílskúr.

Bílskúr

Skilast með flísalögðu gólfi.

Timburhús – teikningar

Hér getur þú skoðað teikningar af húsum sem við höfum byggt.

Heidartun_1_grunnteikning.pdf (574 kB)

Heidartun_3_grunnteikning.pdf (392 kB)

Sómatún 14_Teikning.pdf (351 kB)

Sómatún 18_Teikning.pdf (432 kB)

Timburhús – myndir

Meðfylgjandi myndir eru frá því að húsið við Tónatröð 5 var reist. Þú getur einnig skoðað myndir af öðrum fyrri verkum.